Erlent

Verkamenn biðja Steve Jobs um hjálp

Davíð Roach Gunnarsson skrifar
Steve Jobs hefur ekki svarað bréfinu.
Steve Jobs hefur ekki svarað bréfinu. mynd/afp
Kínverskir verkamenn sem veikst hafa við framleiðslu snertiskjáa fyrir ýmis raftæki frá Apple, svo sem iPhone og iPod Touch, hafa nú skrifað bréf til Steve Jobs og kvartað yfir illri meðferð. 137 vinnumenn hafa veikst vegna eitrunar af völdum efnisins n-hexane og segja farir sínar ekki sléttar. Hinn tævanski verksmiðjueigandi hafi ekki greitt þeim nægar bætur, þeim verkamönnum sem þáðu bætur hafi verið bolað úr starfi og ekki hafi verið samþykkt að ábyrgjast sjúkrareikninga ef til frekari veikinda komi.

Fimm starfsmenn sendu Steve Jobs, framkvæmdastjóra Apple, bréf þar sem þeir biðla til fyrirtækisins um hjálp vegna atviksins. Forsvarsmenn Wintek, tævansks eiganda verksmiðjunnar, segja að n-hexane hafi verið notað í stað áfengis vegna þess að það gufi hraðar upp og flýti fyrir framleiðslu snertiskjáanna. Þeir hafi hins vegar nú hætt allri notkun efnisins.

Verkamenn sem komust í snertingu við efnið hafa fundið fyrir svima og þreytu, miklum svita á höndum og fótum, dofatilfinningu í höndum og bólgu og sársauka í fótum. Sérfræðingar segja að dagleg nálægð við efnið geti valdið langvarandi skaða.

Í ársskýrslu Apple sem kom út í síðustu viku er viðurkennt að atvikið hafi átt sér stað og sagt að fyrirtækið hafi beitt sér fyrir því að Wintek hætti notkun á efninu. Þá kemur fram að Apple hafi beðið Wintek um að bæta loftræstingu í verksmiðjum sínum. Talsmenn Apple hafa hins vegar ekki tjáð sig um bréf starfsmannanna, né hvort þeir verði við bón þeirra um frekari hjálp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×