Erlent

Örsmá tölva á stærð við bókstaf á peningamynt

Helga Mjöll Stefánsdóttir skrifar
Tölvan er um millimetri á stærð eða jafnstór og bókstafur á mynt.
Tölvan er um millimetri á stærð eða jafnstór og bókstafur á mynt.
Vísindamenn hafa nú kynnt til sögunar litla tölvu sem er um millimetri á stærð, eða jafnstór og bókstafur á peningamynt. Í tölvunni er að finna örgjafa, minniskubb, þráðlaust útvarp og rafhlöðu sem gengur fyrir sólarljósi.

Tölvan er byggð á nýju kerfi sem mun vera hægt að nota í læknisfræðilegum tilgangi en þetta mun vera smæsta tölvan sem gerð hefur verið hingað til. Um er að ræða frumgerð af ígræðanlegum skanna sem verður notaður til þess að fylgjast með augum í sjúklingum sem þjást af gláku. Tölvan tengist þráðlaust við aðrar tölvur og sendir þannig áfram þeim gögnum sem hún safnar. Þannig geta vísindamenn fylgst vel með framvindu glákunnar. Tölvan gerir mælingar á 15 mínútna fresti og eyðir aðeins um 5,3 nanóvöttum. Rafhlaðan í tölvunni þarf um eina og hálfa klukkustund af sólarljósi til þess að vera fullhlaðin og getur þá geymt gögnin í allt að eina viku.

Samkvæmt Dennis Sylvester, prófessor við rafmagnsverkfræði og tölvunarfræðideild Háskólans í Michigan, eru vísindamenn mjög bjartsýnir á að hægt verði í framtíðinni að nota tölvurnar til þess að fylgst með mengun sem og að nota þær við ýmis konar eftirlit við byggingar, okkar nánasta umhverfi og líkama.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×