Erlent

Handrit fannst af óútgefinni bók eftir Enid Blyton

Handrit að óútgefinni bók breska barnabókahöfundarins Enid Blyton hefur fundist í skjalasafni hennar.

Enid Blyton var vinsælasti barnabókahöfundurinn víða á Vesturlöndum og þar á meðal á Íslandi fyrir og um miðja síðustu öld. Þeir Íslendingar sem komnir eru til ára sinna muna örugglega eftir Ævintýrabókum hennar og bókunum um Hin Fimm Fræknu eins og þau hétu á Íslandi.

Handritið sem fannst í skjalasafni Blyton er 180 síður að lengd og ber heitið Mr Trumpy Caravan. Það fjallar um töfrum hlaðna vagnalest sem fer sínar eigin leiðir. Handritið er ekki dagsett en á því er heimilisfangið Old Thach í Buckinghamskíri sem var heimili Blyton fram til ársins 1938.

Blyton sem lést árið 1968 nýtur enn mikilla vinsælda. Til dagsins í dag hafa selst um 500 milljónir eintaka af bókum hennar víða um heiminn en á hverju ári seljast um 8 milljónir eintaka af endurútgáfum bóka hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×