Erlent

Harðir bardagar í Líbíu

Bardagar uppreisnarmanna í Líbíu og hermanna Gaddafís einræðisherra fara harðnandi með hverjum deginum. Her Gaddafis gerði í nótt gagnárásir á vígi uppreisnarmanna og urðu margar borgir á austurströnd landsins fyrir sprengjuregni í nótt og um helgina. Tugir létust í borginni Misrata um 200 kílómetra austan við Trípóli en þar höfðu uppreisnarmenn safnast saman til að gera atlögu að höfuðborginni Trípólí sem er enn höfuðvígi Gaddafís og hans manna.

Stjórnarhermenn gerðu innrás í borgina á laugardag og notuðu til þess skriðdreka og stórskotalið en uppreisnarmenn náðu að reka þá til baka í gær. Læknir á spítala í borginni sagði í samtali við BBC að 20 hafi látist af sárum sínum á spítalanum og hundrað hafi særst. Talið er að 16 hermenn hliðhollir Gaddafi hafi fallið í bardaganum hið minnsta.

Þá hefur átta Bretum verið sleppt úr haldi uppreisnarmanna í borginni Benghazi og þeir sendir úr landi, en um var að ræða sérsveitamenn sem áttu að ná sambandi við uppreisnarmenn í Líbíu. Þeir voru hinsvegar handteknir af uppreisnarmönnum um leið og þeir komu til landsins en talið var að þar færu málaliðar Gaddafis.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×