Erlent

Gaddafi: Svikurum engin miskunn sýnd

Mikill fögnuður braust út í Bengazi, höfuðvígi uppreisnarmanna í Líbíu í gærkvöldi, þegar Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti flugbann yfir landinu. Bretar, Frakkar og Bandaríkjamenn munu framfylgja flugbanninu en umfangsmiklar hernaðaraðgerðir hefjast um helgina.

Flugbannið var samþykkt með 10 atkvæðum af fimmtán í Öryggisráðinu en Rússland, Kína, Brasilía, Indland og Þýskaland sátu hjá.

Atkvæðagreiðslunni var sjónvarpað beint og fylgdust margir með henni á torgi í Bengazi en mikill fögnuður braust út efir að niðurstaðan lá fyrir.

Í borginni hefur nú kviknað ný von um að borgarastyrjöldin sem í landinu geisar endi með falli einræðisherrans Gaddafi.

Hann hafði aðeins örfáum klukkutímum áður en Öryggisráðið kom saman ávarpað íbúa Bengazi og sagt þeim að flýja borgina því hersveitar hans væru á leiðinni.

Gaddafi sagði að svikurunum, eins hann kallar uppreisnarmennina, verði ekki sýnd nein miskunn eða samúð.

Flugbannið verður til þess að jafna leikinn á milli hersveita Gaddafis og uppreisnarmanna en flugher Líbíu hefur verið notaður grimmt til að stráfella uppreisnarmenn og er ein höfuðástæða þess að Gaddafi hefur náð að brjóta sókn uppreisnarmanna á bak aftur og náð sjálfur snúa vörn í sókn.

Flugbannið var hinsvegar samþykkt á þeim forsendum að vernda óbreytta borgara

Það verða fyrst og fremst Bretar, Bandaríkjamenn og Frakkar sem koma til að framfylgja flugbanninu en það verður ekki auðvelt verk því Líbía er 7 milljónir ferkílómetra að flatarmáli.

Þar að auki er skiptar skoðanir um skynsemi þess að framfylgja flugbanni, sem er í raun hernaðaríhlutun. Sumir segja að hafi lítil áhrif. Gaddafi geti auðveldlega athafnað sig á landi, en aðrir segja að óumflýjanlegt sé að saklausir borgarar muni láta lífið ef til loftárása kemur, sem er eitthvað sem Gaddafi mun án efa nýta sér í áróðri sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×