Innlent

Glerhjúpur Hörpunnar: Greiðslur til Ólafs Elíassonar eru leyndarmál

Erla Hlynsdóttir skrifar
Ekki fæst uppgefið hvað Portus greiðir Ólafi Elíassyni fyrir hönnun á glerhjúp tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu. Stjórnarformaður Portusar segir ástæðuna vera trúnaðarákvæði í samningi við Ólaf.

Heildarefniskostnaður við glerhjúp Hörpunnar er rúmir þrír milljarðar króna. Ekki er óalgengt að hönnunarkostnaður við slíka byggingu sé tíu prósent, og jafnvel tuttugu prósent af heildarkostnaði. Þannig má reikna með að Ólafur Elíasson hafi fengið hundruð milljóna króna fyrir hönnunina.

Hvað fær Ólafur Elíasson greitt fyrir hönnun á glerhjúpnum?

„Því miður. Ég get ekki sagt þér frá því, því það var gerður samingur við Ólaf Elíasson 2006, það var Portus sem þá var með aðra eigendur en er í dag, og í samningnum er ákvæði um trúnað," segir Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Portusar.

Vegna þessa segir Pétur að honum sé ekki heimilt að upplýsa hvað Ólafur fær greitt.

Portus var á þessum tíma í eigu Nýsis og Landsbankans. Eigendur Portusar nú eru hins vegar íslenska ríkið og Reykjavíkurborg.

Finnst þér ekki óheppilegt að það sé ekki hægt að upplýsa um þetta atriði?

„Jú, auðvitað er það það, og við myndum kannski ekki gera svona samning í dag," segir Pétur.

Hann telur líklegt að ákvæði um trúnað hafi verið sett inn í samninginn til að verja samningsstöðu Ólafa gagnvart öðrum kaupendum verka hans.

„Við verðum bara að virða hann þó það séu komnir nýir eigendur," segir Pétur.

Þannig getur Portus ekki upplýst um endanlegan kostnað við glerhjúpinn, þar sem hönnunarkostnaður er alltaf undanskilinn.

„Við getum ekki gert það einhliða en ef Ólafur Elíasson myndi vilja gera það þá hefði hann okkar heimild," segir Pétur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×