Erlent

Líbískir liðhlaupar aðstoða uppreisnarmenn

Uppreisnarmenn í Líbíu notuðu skriðdreka, stórskotalið og þyrlu til þess að hrinda árás hersveita Gaddafís einræðisherra á bæinn Ajdabiya.

Fréttamaður BBC sem er í höfuðvígi uppreisnarmanna í borginni Benghazy, segir að þetta sé í fyrsta sinn sem hersveitir sem samanstanda af liðhlaupum úr Líbíuher hafi komið uppreisnarmönnum til hjálpar. Ef Ajdabyia fellur er leiðin greið fyrir menn Gaddafís að Benghazy þar sem milljón manns búa en borgin er sú næst stærsta í landinu. Þar hafa uppreisnarmenn ráðið ríkjum síðustu vikur og stjórnað aðgerðum gegn mönnum Gaddafís.

Líklegt er talið að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna taki ákvörðun um aðgerðir gegn stjórnvöldum í Líbíu síðar í dag. Bandaríkjamenn tala fyrir því að flugbann verði sett yfir landinu og einnig er talað um frekari aðgerðir til aðstoðar uppreisnarmönnum. Rússar hafa verið heldur tregari til aðgerða og hafa sett fram gagntillögu sem rædd verður í dag. Talið er líklegt að flugbann verði niðurstaðan en að ekki verði farið út í hernaðaraðgerðir til þess að aðstoða uppreisnarmennina.

Rauði krossinn flutti allt sitt fólk frá Benghazy í gær en fréttamaður BBC segir að almennir borgarar haldi enn kyrru fyrir í borginni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×