Erlent

Ítalía fagnar 150 ára afmæli sínu

Ítalir halda upp á 150 ára afmæli landsins í dag en það fer lítið fyrir hátíðahöldum eða þeirri gleði sem venjulega fylgir merkisdögum sem þessum, meðal þjóða heimsins.

Það er stríðherrann Guiseppe Garibaldi sem á heiðurinn af því að hafa stofnað Ítalíu í núverandi mynd. Ítalir minnast þess nú þegar Garibaldi steig á land á Sikiley árið 1860 og hélt síðan í hernað ásamt 1.000 fylgismönnum sínum upp eftir allri Ítaliu þar til hann gat lýst því yfir þann 17. mars 1861 að Ítalía væri ein þjóð.

Nú 150 árum síðar virðist ekki mikill áhugi vera á að fagna þessum tímamótum með viðeigandi hætti. Umræðan um komandi málaferli gegn Silvio Berlusconi forsætisráðherra landsins og bonga bonga veislur hans yfirgnæfir allt annað í landinu.

Og mörgum Ítölum finnst þeir ekki tilheyra þjóðinni lengur. Meðan viðskiptamenn í Mílanó ganga um í klæðskerasaumðum jakkafötum situr bóndi á Suður Ítalíu á plaststól á bæjarhlaði sínu og bíður eftir að einhver komi að gera við vatnslagnir hans. Svo hann þurfi ekki að sækja vatn upp á fjall eða kaupa það af vatnssölumanninum sem lítur við tvisvar í viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×