Erlent

Keisari Japans áhyggjufullur yfir ástandinu í Fukushima

Breki Logason skrifar
Japanskeisari lýsir yfir miklum áhyggjum með ástandið í kjarnorkuverinu í Fukushima en staðfest er að hátt í 4500 séu látnir og meira en átta þúsund saknað. Íslendingar búsettir í Japan hafa yfirgefið landið.

Vonin um að finna fólk á lífi verður sífellt veikari eftir því sem tíminn líður. Tveir fundust þó á lífi í rústum í Sendai höfuðborg Miyagi héraðs sem fór hvað verst út úr flóðbylgjunni í gær.

Margir eiga erfitt eins og þetta fólk sem horfði á björgunarmenn bera út lík náins ættingja í dag. Heilu þorpin hafa horfið og er spáð tveggja gráðu frosti á svæðinu í nótt.

En það er ekki bara eftirsjáin á eftir vinum og ættingjum sem hvílir á fólki því erfitt hefur verið að að eiga við ástandið í kjarnorkuveri í bænum Fukushima.

Menn hafa keppst við að kæla þrjá kjarnaodda en kælikerfi versins brást í skjálftanum. Eldur kom upp í verinu í nótt og þurftu starfsmenn sem unnu við kælingu frá að hverfa um tíma.

Geislun mælist hinsvegar undir hættumörkum en margir óttast hið versta. Langar raðir mynduðust þar sem fólk lét kanna hvort það hefði orðið fyrir geislun.

Urður Gunnarsdóttir upplýsingafulltrúi Utanríkisráðuneytisins fór út til Tókýó í gær til þess að aðstoða sendiráð okkar þar í landi. Vel hefur gengið að ná í þá Íslendinga sem dvelja í landinu, en einhverjir hafa þegar farið úr landi.

Urður hefur setið fundi með japönskum stjórnvöldum og þar hafa menn mestar áhyggjur af ástandinu í kjarnorkuverunum.

Akihito Japanskeisari hefur ávarpað þjóð sína á þessum erfiðum tímum en sjónvarpsávörp keisara eru afar fátíð. Þar bað hann fólk um að gefa ekki upp von, en lýsti jafnframt yfir miklum áhyggjum af ástandinu í kjarnorkuverinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×