Erlent

Telja sig hafa fundið borgina Atlantis á Spáni

Vísindamenn telja sig enn og aftur hafa fundið hin goðsagnakenndu borg Atlantis. Að þessu sinni nokkuð langt inn í landi á Spáni.

Það er hópur af bandariskum vísindamönnum undir stjórn prófessorsins Richard Freund sem telur sig hafa fundið Atlantis undir leðjulögum skammt frá borginni Cadiz á Spáni eða í um 120 kílómetra fjarlægð frá næstu strönd.

Vísindamennirnir telja að Atlantis hafi orðið fyrir barðinu á gífurlegri flóðbylgju fyrir þúsundum ára. Bylgja þessi hafi verið á stærð við 12 hæða íbúðablokk þegar hún skall á ströndina og eyðilagði síðan Atlantis. Fjallað var um málið í sérstökum þætti á sjónvarpsstöðinni National Geographic í gærvöldi.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem menn telja sig hafa fundið Atlantis en fornar heimildir um þá borg eru fátækar. Einu sögulegu heimildina er að finna í samræðum Grikkjans Plató frá 360 fyrir Krist. Plató segir að á einum degi og einni nóttu hafi Atlantis horfið í djúp hafsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×