Erlent

Náttúruhamfarir í Japan: Nítján orðið fyrir geislun

Staðfest er að 19 manns hafi orðið fyrir geislun
Staðfest er að 19 manns hafi orðið fyrir geislun
Lýst var yfir neyðarástandi í öðru kjarnorkuveri í Japan í dag en staðfest er að 19 manns hafi orðið fyrir geislun og óttast er að sú tala fari hækkandi. Erlendar björgunarsveitir streyma til landsins en eyðileggingin vegna skjálftans er sífellt að koma betur í ljós.

Neyðarástandi var lýst yfir í Onagawa kjarnorkuverinu í dag þar sem mikil geislun mældist á svæðinu. Síðar kom þó í ljós að líklega sé geislunin komin frá kjarnoruveri í bænum Fukushima þar sem öflug sprengning varð í gær.

Menn hafa verið í vandræðum með að kæla kjarnakljúfa og hafa notast við sjó við verkið.

Fólk hefur einnig verið að láta kanna hvort það hafi orðið fyrir geislun, og mynduðust langar raðir þar sem fólk beið niðurstöðu.

Óttast er að tala látinna fari yfir 10 þúsund en staðfest dauðsföll nú eru um þrettán hundruð manns og er þúsunda enn saknað. Til að mynda hefur ekkert spurst til um 9500 íbúa borgarinnar Minamisanriku en hún varð mjög illa úti í skjálftanum.

„Flóðbylgjan lenti á okkur. Ég greip fast í eitthvað og hélt í hönd dóttur minnar. En ég missti takið þegar ég sópaðist burt með brakinu og vatninu," segir kona sem missti dóttur sína í flóðunum.

Erlendar björgunarsveitir streymdu til landsins í dag en enn er talið að fólk geti verið á lífi í rústum bygginga. Margir eru einnig fastir í hálf hrundum húsum og hafa sigmenn reynt að bjarga fólki úr þyrlum.

Fólk er einnig að hamstra vörur í verslunum og algengt er að sjá tómar hillur og fólk úti á götu að ná sér í drykkjarvatn.

Margir reyna að koma sér úr landi vegna ástandsins og hefur verið mikil örtröð á flugvöllum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×