Erlent

Stjörnurnar mótmæla niðurskurði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Helen Mirren er ein þeirra sem mótmælir niðurskurðinum. Mynd/ afp.
Helen Mirren er ein þeirra sem mótmælir niðurskurðinum. Mynd/ afp.
Breskar stjörnur á borð við Helen Mirren, Kenneth Branagh, David Tennant og Victoria Wood og fleiri vara við niðurskurði á opinberum fjárframlögum til lista í heimalandi sínu.

Í opnu bréfi sem birt var í Observer segja 46 breskir listamenn að listir og menning í Bretlandi standi frammi fyrir mestu ógn í marga áratugi. Í bréfinu segir að fyrir síðustu kosningar hafi ríkisstjórnin lofað að stuðla að gullöld í listaheiminum. Veruleikinn gæti ekki verið fjarri þessu loforði.

Listamennirnir segja að niðurskurðurinn muni ekki bara hafa áhrif á kvikmyndagerð, leikhússtarf, starfsemi ríkisútvarpsins og þess háttar. Niðurskurðurinn muni einnig hafa áhrif á þá sem upplifa listir í gegnum nám sitt.

Þá segja listamennirnir að opinber fjárfesting sé mjög mikilvæg fyrir skapandi iðnað í Bretlandi. Slík opinber fjárfesting geti líka skilað hinu opinbera miklu til baka. „Ef okkur er alvara með að endurbyggja hagkerfið, þá hvorki getur, né ætti, niðurskurður að beinast að menningu,“ segja stjörnurnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×