Fótbolti

Hoffenheim lagði topplið Dortmund - Robben með fernu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robben skoraði fjögur í dag.
Robben skoraði fjögur í dag. Nordic Photos / Bongarts
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar unnu í dag virkilega góðan sigur á toppliði þýsku úrvalsdeildarinnar, Dortmund, 1-0 á heimavelli.

Vedad Ibisevic skoraði eina mark leiksins á 63. mínútu en Gylfi kom inn á sem varamaður fyrir hann þegar lítið var eftir af leiknum.

Þetta var aðeins þriðja tap Dortmund á leiktíðinni en liðið er engu að síður með 61 stig og tólf stiga forystu á toppi deildarinnar.

Leverkusen getur minnkað forystuna í níu stig með sigri á Mainz á útivelli á morgun.

Bayern gerði sér lítið fyrir og slátraði Hamburg, 6-0. Arjen Robben skoraði fjögur fyrstu mörk Bayern í leiknum á 24 mínútna kafla í leiknum.

Thomas Müller skoraði svo fimmta markið á 79. mínútu og en sjötta markið var sjálfsmark.

Bayern er í fjórða sæti deildarinnar með 45 stig en Hoffenheim er nú í því níunda með 36 stig.

Eyjólfur Sverrisson, aðstoðarþjálfari Wolfsburg, fylgdist með sínum mönnum tapa í dag fyrir Nürnberg á heimavelli, 2-1.

Wolfsburg situr í fallsæti með 26 stig en liðið hefur tapað sex af síðustu sjö leikjum sínum í deildinni.

Úrslit dagsins:

Hoffenheim-Dortmund 1-0

Bayern - Hamburg 6-0

Kaiserslautern - Freiburg 2-1

Schalke - Frankfurt 2-1

Wolfsburg - Nürnberg 1-2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×