Fótbolti

Butt hættir í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Bongarts
Markvörðurinn Hans-Jörg Butt hefur ákveðið að hann muni leggja hanskana á hilluna þegar að tímabilinu lýkur í sumar.

Butt er á mála hjá Bayern München en missti sæti sitt í byrjunarliðinu í upphafi ársins til Thomas Kraft.

Hann sagði að hann muni taka að sér þjálfunarstarf hjá ungmennaliðum félagsins þegar hann hættir að spila sjálfur.

Manuel Neuer, markvörður Schalke, hefur verið sterklega orðaður við Bayern á undanförnum dögum. „Neuer er frábær markvörður sem býr þar að auki yfir mikilli reynslu, þrátt fyrir ungan aldur. Ég get vel séð fyrir mér að hann komi hingað," sagði Butt.

Butt á að baki langan feril en hann hefur leikið með Oldenburg, Hamburg, Leverkusen, Benfica og Bayern á ferlinum.

Hann er einnig þekktur fyrir það að taka vítaspyrnur fyrir sín lið og skoraði hann til að mynda nítján mörk á fjórum árum fyrir Hamburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×