Fótbolti

Heynckes tekur við Bayern í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jupp Heynckes.
Jupp Heynckes. Nordic Photos / Bongarts
Jupp Heynckes hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri þýska stórliðsins Bayern München og mun hann taka við starfinu í sumar.

Hollendingurinn Louis van Gaal hefur stýrt Bayern undanfarin tvö ár en tilkynnt var fyrir stuttu að hann myndi hætta með liðið í sumar.

Bayern hefur ekki gengið vel í vetur og er fallið úr leik bæði í Meistaradeild Evrópu og þýsku bikarkeppninni. Liðið á lítinn möguleika á að verja þýska meistaratitilinn en Bayern er í fjórða sæti þýsku úrvalsdeildarinnar, fjórtán stigum á eftir toppliði Dortmund.

Heynckes er nú stjóri Leverkusen sem er í öðru sæti deildarinnar, sjö stigum á eftir Dortmund.

Hann mun í sumar taka við Bayern í þriðja sinn á ferlinum en hann stýrði liðinu til sigurs í úrvalsdeildinni tvívegis, árin 1989 og 1990.

Heynckes á langan feril að baki og hefur til að mynda stýrt liði Real Madrid. Hann er 65 ára gamall og skrifaði undir tveggja ára samning við Bayern.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×