Erlent

Portúgalar nálægt því að leita neyðaraðstoðar

Portúgal er nú einu skrefi nær því að leita neyðaraðstoðar eins og Írland og Grikkland hafa gert eftir að ríkisstjórn landsins sagði af sér í gær.

Forsætisráðherra Portúgals Jose Socrates sagði af sér í gær eftir að portúgalska þingið hafnaði fjárlagafrumvarpi hans sem gerði ráð fyrir miklum niðurskurði og skattahækkunum. Frumvarpið var síðasta leið ríkisstjórnarinnar til að sýna að Portúgal gæti sjálft unnið sig út úr skuldavanda sínum. Landið er talið þurfa um 70-80 milljarða evru neyðarpakka samkvæmt heimildum Bloomberg fréttaveitunnar.

Leiðtogafundur Evrópusambandsins hófst í dag og settu atburðirnir í Portúgal strik í reikninginn en fundinum var ætlað að taka erfiðar ákvarðanir til að yfirvinna skuldakreppu ýmissa evruríkja.

Þá mun Spánn kynna nýja efnahagsáætlun á leiðtogafundi Evrópuríkjanna en landið er undir miklum þrýstingi að bæta efnahag sinn og margir telja það næst í röðinni. Atvinnuleysi er helsta áhyggjuefnið á Spáni en þar ríkir nú um 20 prósenta atvinnuleysi, mesta á evrusvæðinu. Þá lækkaði matsfyrirtækið Moodys lánshæfismat bæði spænska ríkisins fyrr í mánuðinum og nú 30 minni banka þar sem það telur ríkið ekki geta staðið við bakið á bönkunum lendi þeir í vanda.

Titringurinn í Evrópu hefur umtalsverð áhrif á fjármálamarkaði en krafa á portúgölsk ríkisbréf hefur rokið upp þar sem fjárfestar reyna að losa sig við bréfin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×