Erlent

Draugaborgin Detroit

MYND/AP
Íbúum bílaborgarinnar Detroit hefur snarfækkað á síðustu tíu árum. Nýjar tölur um íbúafjölda í borginni, sem má muna sinn fífil fegurri þegar bílaiðnaðurinn var í blóma, sýna að íbúum í borginni hefur fækkað um 25 prósent á síðusta áratug. Nú búa rúmlega 700 þúsund manns í borginni og hafa íbúarnir ekki verið færri í heil hundrað ár.

Fækkunin á sér engin fordæmi í bandarískri sögu en 237 þúsund manns hafa flúið borgina á tímabilinu og sjást merki þess í galtómum íbúðarhúsum um alla borg. Fækkun hefur raunar verið stöðug, þó ekki hafi hún verið svona skörp, frá sjötta áratugi síðustu aldar. Þá var borgin í sem mestum blóma enda amerískir bílar alls ráðandi á mörkuðum og þegar mest var bjuggu um tvær milljónir manna í Detroit.

Nú er staðan sú að um 80 þúsund íbúðir standa tómar, sem er um einn fimmti af öllum húsum borgarinnar. Mesta fækkunin hefur orðið á meðal svartra íbúa borgarinnar en þeir hafa fært sig út í úthverfin sem áður voru byggð hvítum millistjórnendum hjá bílarisunum. Það fólk er hinsvegar löngu farið á aðrar slóðir. Hvítum fækkaði einnig, en smávægileg fjölgun er hjá fólki af latneskum uppruna.

Sum hverfi borgarinnar eru í slíkri niðurníðslu að náttúran er að ná yfirhöndinni að nýju og umlykur gróður sum húsin eins og í ævintýrinu um þyrnirós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×