Erlent

Stjórnvöld í Líbíu: Fjöldi óbreyttra borgara hafa fallið

Bandarísk herþota brotlenti nærri Benghazi í Líbíu í gærkvöldi en loftárásir héldu áfram í höfuðborg landsins í nótt. Líbísk stjórnvöld fullyrða að fjöldi óbreyttra borgara hafi fallið í árásunum. Deilur hafa risið í röðum bandamanna.

Loftárásir héldu áfram í Trípolí höfuðborg landsins þriðju nóttina í röð en fullyrt er að fjöldi óbreyttra borgara hafi fallið í árásunum.

„Margir óbreyttir borgarar voru drepnir í nótt. Við bíðum enn eftir opinberum tölum. Mörg skotmarkanna í nótt voru borgaraleg eða hálfhernaðarleg. Það sem er að gerast núna er að bresk stjórnvöld drepa fleiri óbreytta borgara til að vernda óbreytta borgara," segir Moussa Ibrahim, talsmaður ríkisstjórnarinnar.

Talsmaður breska hersins er þó á öðru máli og sagði aðgerðirnar ganga vel. Fréttir frá svæðinu í dag hafa einkennst af bandarískri F15 orrustuþotu sem hrapaði til jarðar nærri borginni Bengazi í gærkvöldi.

Tveir voru um borð en þeir náðu að skjóta sér út úr vélinni áður en hún brotlenti. Þeir eru nú í höndum bandaríska hersins með minni háttar meiðsli en talið er að vélarbilun hafi komið upp í þotunni.

Sky News fréttastöðin slóst í för með uppreisnarmönnum og hitti á óbreytta borgara sem báru herliði Gaddafís ekki vel söguna.

„Þeir sögðu: „Ef þið leggið ekki niður vopn munum við drepa fjölda manns í dag." En við höfum engin vopn til að leggja niður," segir Ahmed Wasi íbúi sem flúði þorpið sitt.

Deilur hafa einnig risið varðandi hverjir eigi að fara með stjórnina fyrir hönd bandamanna en hingað til hefur það verið nokkuð óljóst og greinilegt að Bandaríkjamenn vilja að önnur ríki leiði aðgerðirnar.

Tyrkir eru andvígir því að árásirnar verði á forræði NATO, en Ítalir hafa hinsvegar hótað því að loka flugvöllum sínum fyrir herþotunum fái NATO ekki að ráða för.

Þá hafa Þjóðverjar og Rússar gagnrýnt framkvæmd loftárásanna og segir Pútín forsætisráðherra Rússlands að þær minni á krossferðir miðalda.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×