Erlent

Sprengjuregn í Trípólí

Loftvarnaskothríð Líbíumanna lýsir upp næturhimininn í Trípólí.
Loftvarnaskothríð Líbíumanna lýsir upp næturhimininn í Trípólí.
Loftárásir héldu áfram á höfuðborg Líbíu þriðju nóttina í röð. Háværar sprengingar heyrðust og loftvarnabyssur geltu í alla nótt í borgina en herþotur bandamanna reyna nú að útrýma loftvörnum einræðisherrans Gaddafís. Árásirnar hafa gert uppreisnarmönnum í landinu auðveldar fyrir að berjast við heri Gaddafís en hernaðarsérfræðingar óttast þó að þrátefli kunni að koma upp þar sem uppreisnarmennirnir séu ekki nægilega vel vopnum búnir til þess að láta kné fylgja kviði.

Deilur hafa einnig risið varðandi hverjir eigi að fara með stjórnina fyrir hönd bandamanna en hingað til hefur það verið nokkuð óljóst og greinilegt að Bandaríkjamenn vilja að önnur ríki leiði aðgerðirnar. Tyrkir eru andvígir því að árásirnar verði á forræði NATO, en Ítalir hafa hinsvegar hótað því að loka flugvöllum sínum fyrir herþotunum fái NATO ekki að ráða för.

Þá hafa Þjóðverjar og Rússar gagnrýnt framkvæmd loftárásanna og  segir Pútín forsætisráðherra Rússlands að þær minni á krossferðir miðalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×