Fótbolti

Heynckes hættir hjá Leverkusen - gæti verið á leið til Bayern

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Bongarts
Jupp Heynckes, stjóri Bayer Leverkusen, mun hætta hjá félaginu þegar að tímabilinu lýkur í Þýskalandi í vor en hann er nú að íhuga tilboð um að taka við Bayern München.

Robin Dutt, stjóri Freiburg, mun taka við Leverkusen í sumar en Heynckes hefur tvívegis áður stýrt Bayern og jafn oft orðið Þýskalandsmeistari með liðinu.

„Ég er ekki búinn að segja já og það hafa engar viðræður átt sér stað,“ sagði hann en staðfesti að Karl-Heinz Rummenigge, framkvæmdarstjóri Bayern, hafi hringt í sig til að bjóða sér starfið.

„Ég ræddi svo líka við Uli Höness (forseta Bayern), góðvin minn.“

Heynckes stýrði Bayern fyrst frá 1987 til 1991 en liðið varð meistari árin 1989 og 1990. Hann kom svo liðinu til bjargar undir lok tímabilsins 2009 eftir að Jürgen Klinsmann var sagt upp störfum.

Louis van Gaal tók við Bayern eftir það en hann mun hætta með liðið í sumar. Bayern hefur gengið illa á tímabilinu til þessa og er liðið í fjórða sæti þýsku úrvalsdeildarinnar nú og fallið úr leik í bæði Meistaradeild Evrópu og þýsku bikarkeppninni.

Bayern varð tvöfaldur meistari í fyrra og komst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar en tapaði í honum fyrir Inter frá Ítalíu.

Leverkusen er úr leik í Evrópudeild UEFA en er í öðru sæti þýsku úrvalsdeildarinnar, sjö stigum á eftir toppliði Dortmund.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×