„Við hugsum allir til Seve og það var mjög auðvelt að heiðra hann með þessum hætti – í raun var þetta ekkert mál. Ég vildi bara láta hann vita að við hugsum allir til hans og við vildum allir að hann væri hér með okkur," sagði Mickelson en Ballesteros var einn af þeim kylfingum sem bandaríski kylfingurinn leit upp til þegar hann var yngri.

„Þegar ég horfði á hann leika þá féll ég fyrir því hvernig hann framkvæmdi höggin. Hann var allt öðruvísi en aðrir," sagði Mickelson.
Jack Nicklaus, sem hefur oftast sigrað á Mastersmótinu, eða sex sinnum alls hefur einnig hrifist af leik Ballesteros og þá sérstaklega hvernig hann gat leyst erfið högg úr nánast ómögulegri stöðu.
„Seve fann upp ýmis högg sem enginn gat leikið eftir. Upphafshöggin enduðu oft á skrýtnum stöðum hjá Seve en hann gat slegið frá bílastæðinu, undir bifreiðum, yfir hús, yfir tré og boltinn endaði mjög oft á flötinni og hann fékk oft par úr slíkum aðstæðum. Þannig var Seve," sagði Nicklaus.