Viðskipti innlent

RóRó sigraði frumkvöðlakeppni Innovit

Eyrún með gulleggið ásamt öðrum sigurvegurum.
Eyrún með gulleggið ásamt öðrum sigurvegurum.
Sprotafyrirtækið RóRó sigraði í frumkvöðlakeppni Innovit um Gulleggið 2011. RóRó er viðskiptahugmynd Eyrúnar Eggertsdóttur sem hefur fundið upp tæki sem hjálpar ungbörnum að sofa betur, líða betur og eykur öryggi þeirra.

Eyrún vinnur nú að því að vinna hugmyndinni brautargengi á alþjóðamarkaði og sækja um einkaleyfi. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra afhenti sigurlaunin við fjölmenna athöfn á Háskólatorgi.

Öflugar athafnakonur röðuðu sér einnig í önnur verðlaunasæti, en í 2. sæti varð sprotafyrirtækið Puzzled by Iceland, sem stofnað var af Guðrúnu Heimisdóttur og Þóru Eggertsdóttur. Í þriðja sæti varð fyrirtækið Pink Iceland sem stofnað var af Evu Maríu Þórarinsdóttur Lange og Birnu Hrönn Björnsdóttur.

Hér fyrir neðan eru svo þrjú efstu sætin:

1. sæti: RóRó  Tæki sem hjálpar ungbörnum að sofa betur, líða betur og eykur öryggi þeirra.

2. sæti: Puzzled by Iceland – Puzzled by Iceland hjálpar ferðamönnum að varðveita minningarnar frá ferðalögum sínum með því að bjóða upp á vandaða minjagripi í formi fallegra og fræðandi púsluspila. Vörumerkið, sem er “Puzzled by”, hefur alþjóðaskírskotun með möguleika á alþjóðlegri markaðssetningu.

3. sæti: Pink Iceland – sérhæfð ferðaskrifstofa fyrir LGBT (Lesbian, Gay, Bisexual and Transgender) markaðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×