Fótbolti

Dóra María opnaði markareikninginn sinn hjá Djurgården

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dóra María Lárusdóttir.
Dóra María Lárusdóttir. Mynd/Heimasíða sænska sambandsins
Djurgården vann sannfærandi 4-1 sigur á botnliði Dalsjöfors í sænsku kvennadeildinni í fótbolta í dag en þrír íslenskir leikmenn spila með Djurgården-liðinu. Dóra María Lárusdóttir skoraði fyrsta markið og lagði upp það síðasta.

Djurgården var búið að tapa síðustu tveimur leikjum sínum en Dóra María kom liðinu í 1-0 eftir aðeins sex mínútur og opnaði þar með markareikning sinn hjá félaginu. Staðan var 1-0 í hálfleik en mörkunum ringdi síðan í þeim seinni.

Emma Lund skoraði síðan þrennu í seinni hálfleiknum og síðasta markið hennar kom eftir stoðsendingu frá Dóru Maríu. Dalsjöfors náði að minnka muninn í 3-1 á 79. mínútu.

Dóra María var tekin útaf á 80. mínútu eða strax eftir fjórða markið. Guðbjörg Gunnarsdóttir og Katrín Jónsdóttir léku hinsvegar báðar allan leikinn en þær hafa allar þrjár verið í byrjunarliði Djurgården í fyrstu fjórum umferðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×