Innlent

SA: Vilja semja til þriggja ára

Vilmundur Jósefsson, formaður SA.
Vilmundur Jósefsson, formaður SA. MYND/GVA
Framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins ætlar að leita eftir því við samningsaðila að ljúka gerð kjarasamnings. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem samtökin héldu nú rétt fyrir ellefu.

Á fundinum lýstu forystumenn vilja sínum til að gera kjarasamninga til þriggja ára. Þetta eru viðbrögð samtakanna við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í gærkvöldi, sem lögð var fram til að liðka fyrir að viðræður um kjarasamninga kæmust aftur á skrið eftir að slitnaði upp úr þeim fyrir helgina.

Í yfirlýsingu frá SA segir: 

"Í gærkvöldi bárust ný drög að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana. Að mati SA er þar komið að nokkru til móts við sjónarmið samtakanna um auknar framkvæmdir í hagkerfinu auk þess sem sett er fram ákveðin bókun um meðferð frumvarps um sjávarútvegsmál.

Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að skapa fyrirtækjum landsins starfsöryggi og frið og hafa því ákveðið að láta reyna á vilja ASÍ og landssambandanna til að ljúka gerð þriggja ára kjarasamnings með aðfarasamningi til 15. júní nk.

Þrátt fyrir slæma  reynslu SA af yfirlýsingu ríkisstjórnar við gerð stöðugleikasáttmálans 2009 þá hefur framkvæmdastjórn SA á fundi sínum í morgun ákveðið að leita eftir því við samningsaðila að ljúka gerð kjarasamningsins. SA leggja mikla áherslu á að fylgja eftir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og munu vinna að þvi af fullum heilindum. Þetta er gert í þeirri fullvissu að atvinnuleiðin sé best til þess fallin að ná þjóðinni út úr kreppunni og skapa grundvöll að nýrri sókn í atvinnumálum, auknum kaupmætti og því að unnt verði að draga úr atvinnuleysinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×