Innlent

Gagnrýna að myndatökumenn fari með í húsleitir

Maður sem lögregla gerði húsleit hjá í fylgd myndatökumanns fréttavefs Morgunblaðsins fyrir skömmu er afar óhress með þá framgöngu lögreglunnar.

Í DV í dag segir maðurinn nóg komið af ógæfu í hans lífi. Lagt var hald á nokkuð magn fíkniefna í húsleitinni og segir maðurinn að rangt hafi verið farið með það magn sem fannst í innslagi MBL.

Stefán Eiríksson lögreglustjóri í Reykjavík sagði í samtali við fréttastofu að hann sæi ekkert athugavert við að lögregla tæki fréttamenn með sér inn á heimili fólks þar sem gerð væri húsleit. Tilgangur þess væri að gefa innsýn í störf lögreglunnar. Ekki hafi verið óskað eftir heimild dómara fyrir því að hafa fjölmiðil með í för enda þurfi lögreglan þess ekki.

Málsmetandi lögmenn sem fréttastofan ræddi við eru algerlega ósammála lögreglustjóranum og segja að um brot á ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi heimilisins sé að ræða. Heimild sem dómari gefi lögreglu til að rjúfa friðhelgi heimilisins vegna rökstudds gruns um lögbrot, geti ekki náð til fjölmiðla, enda geti aðkoma þeirra að húsleit aukið á niðurlægingu meints brotamanns og jafnvel virkað honum til sakbendingar áður en rannsókn máls sé lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×