Innlent

Rekstur Álftaness gekk betur en búist var við

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það var meðal annars fjárfesting í sundlauginni sem fór illa með fjárhag Álftaness. Mynd/ GVA.
Það var meðal annars fjárfesting í sundlauginni sem fór illa með fjárhag Álftaness. Mynd/ GVA.
Um átta milljóna króna tap var á rekstri Álftanesbæjar á síðasta rekstrarári. Áætlanir höfðu hins vegar gert ráð fyrir að tapið yrði 102 milljónir króna. Eigið fé sveitarfélagsins er neikvætt um 1249 milljónir króna.

Fjárhagsmál sveitarfélagsins Álftanesbæjar voru mjög mikið til umfjöllunar fyrir um það bil ári síðan. Gríðarlegur vandi steðjaði að sveitarfélaginu vegna mikilla fjárfestinga, meðal annars í byggingu sundlaugar í sveitarfélaginu. Í febrúar í fyrra skipaði þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fjárhaldsstjórn til að hafa forystu um endurskipulagningu fjármála Álftaness.

Meirihlutinn í bæjarstjórn Álftaness segir að niðurstaðan beri þess merki að tekist hafi að snúa neikvæðri þróun í rekstri í jákvæða. Bendir meirihlutinn á að 322 milljóna króna tap hafi verið á rekstri sveitarfélagsins á árinu 2009. „Samanburður á kostnaði innan ársins í endurskoðunarskýrslu staðfestir að hagræðingaraðgerðir og kostnaðareftirlit fjárhaldsstjórnar og bæjarstjórnar séu farnar að bera umtalsverðan árangur á seinni helmingi ársins," segir meirihlutinn í bókun á bæjarstjórnarfundi.

Minnihlutinn í bæjarstjórn segir hins vegar að ársreikningurinn sýni glöggt aukna skattheimtu og niðurskurð á þjónustu við íbúana. Afleiðingarnar séu meðal ananrs fækkun íbúa og þar með rýrnun skatttekna. „Íbúum á Álftanesi fækkar í fyrsta skipti um áratuga skeið á sama tíma og íbúum nágrannasveitarfélaganna, Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi og Mosfellsbæ fjölgar. Ef aðstæður á fasteignamarkaði væru betri væri fækkunin vafalaust umtalvert meiri,“ segir meirihlutinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×