Erlent

Tekur allt að þrjú ár að greiða brúðkaupsreikninga

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hamingjusöm brúðhjón.
Hamingjusöm brúðhjón.
Það tekur pör allt að þrjú ár að greiða reikninga fyrir brúðkaupið sitt, segir breska blaðið Daily Telegraph. Kostnaður við brúðkaup getur numið allt upp undir tveimur milljónum íslenskra króna.

Það er brúðkaupshugur í Bretum, en eins og flestir vita munu Vilhjálmur prins og Katrín unnusta hans ganga upp að altarinu á morgun. Daily Telegraph segir að þau muni sennilegast ekki glíma við sama vanda og aðrir þegar kemur að því að greiða kostnaðinn af brúðkaupinu. Það fellur allt á skattgreiðendur. Venjulegt fólk þurfi hins vegar ofta að taka sér allt upp í 33 mánuði til að greiða reikningana frá brúðkaupsdeginum. 

Daily Telegraph segir að ung pör séu líklegust til að eyða mestum pening, en um 20% ungra para á aldrinum 18-24 ára eyði upp undir 10 þúsund sterlingspundum eða 1850 þúsund íslenskra króna, samkvæmt könnunum. Um 9% para á aldrinum 25-34, 35-44 og 55-64 ára eyða meira en 10 þúsund pundum í brúðkaup sitt og 7 prósent para á aldrinum 45-54 eyða meiru en þetta.

Daily Telegraph segir að mörg pör fái lán frá fjölskyldunni eða fái yfirdrátt á greiðslukortin sín eða önnur lán til að greiða fyrir brúðkaupin. Meðalupphæð sem tekin er að láni er um 900 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×