Innlent

Forsetinn tekur á móti sérstökum sendiherrum

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands mun í dag, fimmtudaginn 28. apríl, afhenda sjö einstaklingum tilnefningu þeirra sem sérstakir sendiherrar Sáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir fatlað fólk.

„Þessir sjö einstaklingar hafa undanfarna þrjá mánuði sótt námskeiðið Sendiherrar Sáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem fjallar um réttindi fatlaðs fólks. Þess má geta að Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna fyrir fatlað fólk, sem var undirritaður á Íslandi árið 2007, hefur ekki enn verið lögfestur," segir í tilkynningu frá Þroskahjálp og Fjölmennt.

Meginmarkmið námskeiðsins er að fræða og freista þess að breyta ímynd fatlaðs fólks. „Þeir einstaklingar sem hafa tekið þátt í námskeiðinu hafa allir mikla reynslu í réttindabaráttu fatlaðra og sumir í gegnum samtökin Átak sem er félag fólks með þroskahömlun."

Forysta Landssamtakanna Þroskahjálpar hefur frá upphafi unnið að hagsmunum fatlaðs fólks. Að þessu sinni voru það Gerður Aagot Árnadóttir, formaður samtakanna, og Friðrik Sigurðsson framkvæmdastjóri sem hrundu þessari hugmynd í framkvæmd og fengu í því skyni styrk frá Progress áætlun Evrópusambandsins," segir ennfremur en Fjölmennt - símenntunar- og þekkingarmiðstöð - var falið að hrinda verkefninu í framkvæmd og verkefnisstjóri hefur verið Ásdís Guðmundsdóttir, kennari við Fjölmennt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×