Innlent

Ferðaþjónustan kvíðir mögulegum verkföllum

Ferðmann á Íslandi.
Ferðmann á Íslandi.
Aðilar innan ferðaþjónustunnar hafa miklar áhyggjur af áhrifum umræðunnar um möguleg verkföll og enn meiri áhyggjur af því að verkföll skelli á.

Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair segir í Morgunblaðinu í dag að verkfall muni hafa mjög alvarlegar afleiðingar og þegar menn séu farnir að tala um tímasetningu verkfalla eins og gerst hafi í gær, geti það haft áhrif á bókanir erlendra ferðamanna.

Í svipaðan streng taka forráðamenn hótela og annarrar ferðaþjónustu í landinu. Verkalýðsforystan talar nú um að allsherjarverkfall geti skollið á í kring um 20. maí verði ekki samið fyrir þann tíma.

Mjög stór verkalýðsfélög og sambönd hafa hafið undirbúning aðgerða með því að vísa deilum sínum til Ríkissðáttasemjara og saka Samtök atvinnulífsins um að koma í veg fyrir samninga með deilum sínum við stjórnvöld um stjórn fiskveiða.

Forysta Samtaka atvinnulífsins segist hins vegar enn vera að berjast fyrir því sem hún kallar atvinnuleið og lofar allt að 12 prósenta launahækkunum á næstu þremur árum, en þá verði sjávarútvegurinn að búa við starfsöryggi og aukin fjárfesting í þjóðfélaginu að liggja fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×