Innlent

Vígslubiskupskjör: Kjörstjórnin segir af sér

Kjörstjórn þjóðkirkjunnar hefur sagt af sér í framhaldi af því að ákveðið hefur verið að kjósa þurfi að nýju til vígslubiskups í Skálholti. Ástæða þess að kjósa þarf að nýju er að tvö atkvæði sem póstlögð voru 11. apríl voru tekin með en samkvæmt bréfi kjörstjórnar átti að póstleggja atkvæðin í síðasta lagi 8. apríl.

Í tilkynningu frá þjóðkirkjunni segir að kjörstjórnin hafi fundað í dag og niðurstaða þess fundar hafi verið að kjörstjórnin segi af sér til að skapa traust og trúverðugleika um framhald kosningarinnar. Í bókun sem gerð var á fundinum segir:   „Kjörstjórn fór yfir næstu skref í ljósi niðurstöðu yfirkjörstjórnar í máli nr. 10/2011. Eftir að hafa farið yfir og rætt ýmsar hliðar málsins er það niðurstaða kjörstjórnar, að til þess að skapa traust og trúverðugleika um framhald kosningarinnar sé rétt að undirrituð, aðalmenn í kjörstjórn, segi af sér.“

Aðalmenn í kjörstórn voru þau Anna G. Björnsdóttir, Jóhann E. Björnsson og Arnfríður Einarsdóttir.

Varamenn í kjörstjórn munu því taka við framkvæmd kosninganna en það eru þau Gísli Baldur Garðarsson, hrl., Halla Bachmann Ólafsdóttir, lögfræðingur og Inga Rún Ólafsdóttir, kirkjuþingsmaður




Fleiri fréttir

Sjá meira


×