Innlent

Stefndu á Grundartanga en vísað til Húsavíkur

Finnsku fyrirtæki, sem skoðað hefur möguleika á að reisa efnaverksmiðju á Grundartanga, hefur verið beint til Húsavíkur. Landsvirkjun kveðst nú vísa öllum áhugasömum orkukaupendum norður.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra nefndi þetta verkefni í ræðu á Alþingi í síðasta mánuði og tiltók þá sérstaklega Grundartanga sem staðsetningu. Hún nefndi þó ekki fyrirtækið en það heitir Kemira og er með höfuðstöðvar í Helsinki. Velta þess í margvíslegum efnaiðnaði víða um heim nam yfir 300 milljörðum króna á síðasta ári.

Fulltrúar þess hafa að undanförnu kannað möguleika á að reisa sódíumklóratverksmiðju á Grundartanga en það efni er notað í pappírsframleiðslu. Þótt þetta hljómi ekki beint sem umhverfisvæn starfsemi er fullyrt að svo sé og hráefnið sé fyrst og fremst salt og vatn. Finnarnir vilja kaupa allt að 60 megavött raforku til að framleiða eittthundrað tonn af efninu á ári en starfsemin kallar á 50-60 starfsmenn.

Nú hefur orðið sú breyting á verkefninu að Landsvirkjun hefur beint fyrirtækinu á nýja staðsetningu, nefnilega Bakka við Húsavík, og fóru fulltrúar þess þangað til vettvangskönnunar fyrir páska.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, kveðst ekki vilja tjá sig um viðræður við einstaka aðila, en staðfestir að öllum áhugasömum orkukaupendum sé nú vísað norður. Ástæðan sé sú að eina orkan sem Landsvirkjun geti boðið boðið nýjum aðilum á næstunni sé á Norðausturlandi.

Segir Hörður að Landsvirkjun eigi nú í viðræðum við fimm til sex aðila um nýtingu orkunnar í Þingeyjarsýslum en kveðst ekki geta nefnt neina tímasetningu um hvenær þau mál skýrist frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×