Innlent

Allir sem fá uppsagnarbréf eiga kost á vinnu

Á þessu ári stendur til að ráða 55 starfsmenn til leikskóla Reykjavíkurborgar til að mæta stórum árgangi leikskólabarna sem kemur inn í skólana í haust.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að þeir 46 stjórnendur í  leikskólum sem fá uppsagnarbréf nú um mánaðamótin eiga því allir möguleika á að sækja um ýmis störf hjá leikskólunum, s.s. starf leikskólastjóra, aðstoðarleikskólastjóra eða deildarstjóra.

„Uppsagnirnar eru liður í breytingum á yfirstjórn og rekstri leikskóla með það í huga að ná fram nauðsynlegri rekstrarhagræðingu og bregðast við barnafjölgun á næstu misserum,“ segir ennfremur.

„Eftir þessar breytingar verða leikskólar borgarinnar 62 í stað 76, en þær munu ekki hafa áhrif á þjónustu leikskólanna við börn og foreldra.   Fjárframlög til Leikskólasviðs voru í ársbyrjun aukin um 500 milljónir til að skapa leikskólapláss fyrir þann stóra árgang sem innritast í skólana í haust og af þeim sökum verða næg störf í boði þrátt fyrir hagræðingu og sameiningu leikskóla,“ segir einnig en á næstunni verða auglýst 15 störf leikskólastjóra, auk starfa aðstoðarleikskólastjóra, en áætlað er að ráða alls 30 leikskólastjóra og aðstoðarleikskólastjóra til leikskóla borgarinnar.

„Áætlað er að sameiningar í yfirstjórn leikskóla borgarinnar skili ríflega 266 milljóna króna sparnaði á næstu þremur árum,“ segir einnig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×