Innlent

Þjófagengi á Vestfjörðum kveikti í sinu og gömlum jeppa

Mynd úr safni
Lögreglan á Vestfjörðum handtók í gær fjórar manneskjur vegna gruns um aðild að fjölda innbrota og skemmdarverka í Ísafjarðarbæ yfir páskahátíðina.

Þar var meðal annars um að ræða tvö innbrot á páskadag í verslanir í Bolungarvík þar sem ýmsum söluvarningi var stolið, og rúða brotin í sendiferðabíl sem tilheyrði annarri versluninni.

Á annan dag páska var eldur borinn að gamalli númerslausri jeppabifreið í Bolungarvík, og bifreiðin gjörónýt á eftir. Þá var fyrr um nóttina kveikt í sinu í Bolungarvík en greiðlega gekk að slökkva þann eld.

Skemmdarverkahrinan hófst hins vegar á laugardag þegar kveikt var í sinu í Seljalandsdal á Ísafirði, og gekk einnig greiðlega að slökkva hann.

Þau fjögur handteknu játuðu öll aðild sína að þessum málum og var þeim sleppt að loknum yfirheyrslum í gærkvöldi.

Lögregla fann hluta þýfisins, sem verður skilað til eigenda. Þau hafa öll áður komið við sögu lögreglu vegna ýmissa brota.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×