Innlent

Íslenska ríkið gæti þurft að greiða gengislánaskuldurum skaðabætur

Björn Þorri Viktorsson
Björn Þorri Viktorsson
Íslenska ríkið - en ekki fjármálafyrirtæki - gæti þurft að greiða gengislánaskuldurum skaðabætur, fallist eftirlitsstofnun EFTA á það sjónarmið grasrótarsamtaka að ríkið hafi brotið á rétti neytenda með því að lögbinda seðlabankavexti á ólögleg gengislán.

Hagsmunasamtök heimilanna, Samtök lánþega, og um eitt þúsund einstaklingar hafa nú sent formlega kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, vegna meintra brota íslenskra stjórnvalda og stjórnsýslu á neytendarétti. Kvörtunin er í nokkrum liðum og ítarlega rökstudd á 18 kílógrömmum af pappír eftir því sem fram kom í viðtali við Björn Þorra Viktorsson, hæstaréttarlögmann og talsmanns hópsins, í Í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þar var hann spurður að því hvaða afleiðingar það hefði ef ESA féllist á þeirra sjónarmið.

Í morgun sendu þingmenn Hreyfingarinnar síðan frá sér fréttatilkynningu og kveðast hafa lagt fram lagafrumvarp til að afnema lagabreytinguna sem gerð var eftir gengislánadómana. Hreyfingin segir að Hæstiréttur hafi ekki skorið úr um hvort hægt sé að krefjast viðbótargreiðslna aftur í tímann á grundvelli endurútreiknings eða að heimilt sé að bæta endurútreiknuðum viðbótarvöxtum við höfuðstól lánanna. Enn fremur segja þeir að staða margra lántakenda hafi breyst til hins verra með endurútreikningum fjármálafyrirtækja. Og taka dæmi af tæplega 30 milljóna króna láni sem tekið var um mitt ár 2006, eftir endurútreikninginn hafi mánaðarleg greiðslubyrði þess láns hækkað um 128%, úr tæpum 130 þúsund krónum mánuði upp í rúm 300 þúsund.

Viðtalið við Björn Þorra má hlusta á með því að smella á tengilinn hér að ofan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×