Oliver Kahn, fyrrum markvörður Bayern Munchen og þýska landsliðsins, hefur verið dæmdur til að greiða 125 þúsund evrur eða 20 milljónir íslenskra króna í sekt fyrir að reyna að smygla fatnaði til Þýskalands. Kahn gaf ekki upp lúxus-klæðnað sem hann keypti fyrir meira en 6000 evrur í ferð sinni til Dúbæ.
Hinn 41 árs gamli Kahn var stoppaður á flugvellinum í Munchen þegar hann kom heim frá Dúbæ með ný föt að virði 6685 evra eða rúmlega einnar milljónar íslenskra króna.
Kahn hafði keypt sér allskyns póló-boli, boli, peysur, skyrtur, buxur og jakka frá hátískuframleiðendum eins og Armani og Dolce & Gabbana. Hann ætlaði ekki að gefa neitt upp þegar hann fór í gegnum tollinn en var stoppaður af tollvörðunum.
Kahn hefði þurft að borga toll upp á 2119 evrur fyrir fötin en þarf þess í stað að borga 125 þúsund evrur í sekt.
Kahn laggði markmannshanskana á hilluna árið 2008 en hann var lengi fyrirliði hjá bæði Bayern Munchen og þýska landsliðinu. Kahn lék líka alls 86 landsleiki fyrir Þýskaland og 106 leiki fyrir Bayern í Meistaradeildinni.
Haukar
Galychanka Lviv