Innlent

Svandís verður líklega tímabundið menntamálaráðherra

Höskuldur Kári Schram skrifar
Ekki er talið líklegt að ráðherralið Vinstri grænna taki miklum breytingum þegar Katrín Jakobsdóttir fer í fæðingarorlof.

Svandís Svavarsdóttir mun væntanlega gegna stöðu menntamálaráðherra á meðan Katrín er í leyfi.

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, fer fæðingarorlof í næsta mánuði og mun í fyrsta lagi snúa aftur í október eða nóvember næstkomandi.

Margir hafa talið líklegt að forystumenn ríkisstjórnarflokkana myndu nýta þetta tækifæri til að gera breytingar á ráðherraliði ríkisstjórnarinnar. Þrír þingmenn hafa yfirgefið þingflokk vinstri grænna á þessu ári og þá hefur gengið brösuglega hjá ríkisstjórninni að sameina ráðuneyti meðal annars vegna andstöðu Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Samkvæmt heimildum fréttastofu stendur hins vegar ekki til að skipta ráðherrum út né gera miklar breytingar á ráðherraliðinu. Rætt er um að Svandís Svavarsdóttir gegni embætti menntamálaráðherra samhliða störfum sínum sem umhverfisráðherra þangað til Katrín snýr aftur en það mun skýrast á næstu vikum.

Þessi niðurstaða þykir líklegust því að öðrum kosti þyrfti að setja Katrínu af sem ráðherra sem væri bagalegt fyrir ríkisstjórn sem kennir sig við jafnrétti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×