Erlent

Sonur Gaddafis gæti átt dauðadóm yfir höfði sér

Saif ásamt byltingarhermönnum.
Saif ásamt byltingarhermönnum. mynd/AFP
Mynd tekin stuttu eftir að Saif var handsamaður.mynd/AFP
Saif Gaddafi, sonur fyrrverandi einræðisherrans Muammars Gaddafi, gæti átt yfir höfði sér dauðadóm verði réttað yfir honum í Líbíu. Mannréttindasamtökin Amnesty International kröfðust þess að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn í Hag myndi annast réttarhöldin.

Yfirvöld í Trípóli telja að Saif eigi að svara til saka í Líbíu en hann er sakaður um glæpi gegn þegnum landsins.

Saif var handtekinn af byltingarhermönnum í suðurhuta Líbíu. Talið er að hann hafi verið á leið til Nígeríu.

Þegar byltingarhermenn komu höndum yfir Saif var hann klæddur í kufl og gekk með vefjarhött. Andlit hans var þakið sandi og mold. Lífstíll Saif er víðfrægur og er hann þekktur fyrir glæsileg föt og íburðarmiklar veislur.

Saif sagði hermönnunum að hann væri einfaldur hjarðmaður og gaf upp falskt nafn. Þegar hermennirnir efuðust um sögu Saif stökk hann út úr bílnum og reyndi að fela sig. Fyrir nokkrum mánuðum lýsti Saif því yfir að hann myndi berjast til dauða.

Saif var fluttur flugleiðis til Trípóli. Eftir að vélin lenti bað Saif einn hermannanna vinsamlegast um að slökkva í sígarettu - kvartaði undan hræðilegri lykt. Hermaðurinn spurði Saif hvort að hann vildi opna dyrnar en fyrir utan var mikill fjöldi fólks samankomin til að sjá son Muammars Gaddafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×