Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarformaður Bayern München, er efins um hvort að félagið nái að komast að samkomulagi við Schalke um kaup á markverðinum Manuel Neuer.
Neuer hefur lýst því yfir að hann muni fara frá Schalke í sumar. Hann ætlar þó að vera áfram í Þýskalandi og hefur helst verið orðaður við Bayern.
Bæjarar hafa lagt fram tilboð í Neuer en talið er talsvert vanti upp á það sem Schalke vill fá fyrir kappann.
„Við munum án nokkurs vafa kaupa markvörð í sumar,“ sagði Rummenigge í samtali við þýska fjölmiðla. „En ég held að það muni taka einhvern tíma að komast að samkomulagi um neuer.“
„Ég er ekki sannfærður um að Schalke og Bayern muni komast að samkomulagi um kaupverð á skömmum tíma. Við verðum að bíða og sjá til enda er félagaskiptaglugginn opinn í fjóra mánuði í viðbót.“
Talið er að ef Bayern muni ekki kaupa Neuer muni það reyna frekar að fá Heinz Müller, markvörð Mainz.
Fótbolti