Fótbolti

Fingralangir Börsungar - merkjamál Mourinho og Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Portúgalarnir Jose Mourinho og Cristiano Ronaldo voru allt annað en sáttir með dómgæsluna í leikjum liðsins á móti Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

Liðin gerðu 1-1 jafntefli á Camp Nou í gær en Barcelona fór áfram þökk sé 2-0 sigri sínum á Santiago Bernabeu í síðustu viku þar sem Lionel Messi skoraði bæði mörkin eftir að Real Madrid missti mann af velli með rautt spjald.

Þeir Mourinho og Ronaldo létu fingur sína tala sínu máli á flugvellinum í Barcelona þegar þeir voru á heimleið til Madrid. Um leið og þeir löbbuðu framhjá sjónvarpsvélunum lyftu þeir hendinni og hreyfðu alla fingurna sem er spænska táknmálið yfir það að ræna. Það má sjá þá félaga í flughöfninni með því að smella hér fyrir ofan.

Real Madrid menn voru ekki aðeins ósáttir með dómarann í fyrri leiknum heldur voru þeir brjálaðir yfir því að mark Gonzalo Higuain var dæmt af í seinni leiknum í gær.

Real Madrid náði að skora í stöðunni 0-0 en mark Higuain var dæmt af þar sem dómarinn taldi að Ronaldo hefði fellt Javier Mascherano.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×