Innlent

Krufning í morgun: Bráðabirgðaniðurstaða leiðir ekkert nýtt í ljós

Erla Hlynsdóttir skrifar
Myndin er úr safni
Myndin er úr safni
Bráðabirgðaniðurstaða krufningar á ungri stúlku sem lést á laugardagsmorguninn eftir að hafa neytt fíkniefna hefur ekki varpað frekara ljósi á dánarorsök hennar. Allt að þrjár vikur eru þar til niðurstöður lyfjarannsóknar liggja fyrir en óskað hefur verið eftir flýtimeðferð.

Talið er að stúlkan hafi látist af ofskammti fíkniefna, og beinist rannsókn lögreglu meðal annars að því hvort andlát stúlkunnar megi rekja til þess að hún hafi neytt svokallaðs PMMA-amfetamíns.

Stúlkan var krufin í morgun. Björgvin Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að blóð- og þvagsýni hafi verið send til til flýtimeðferðar vegna lyfjarannsóknar en almennt taki slík rannsókn allt að þremur vikum.

Lögreglan lagði einnig hald á fíkniefni þar sem stúlkan fannst látin, og verða þau sömuleiðis efnagreind.

Amfetamín með PMMA fannst í fyrsta sinn á Íslandi í apríl en grunur leikur á að efnið hafi átt þátt í dauða ungmenna í öðrum löndum.

Tugir manna hafa verið handteknir í þágu rannsóknarinnar og er hún enn í fullum gangi.


Tengdar fréttir

Lögregla gerir dauðaleit að banvænu dópi

Lögregla leggur nú allt kapp á að rekja uppruna og dreifingarleiðir fíkniefnisins PMMA, sem grunur leikur á að hafi dregið tvítuga stúlku til dauða á laugardagsmorgun.

Andlát í Árbæ: Yfir tíu handteknir vegna málsins

Lögreglan gerði húsleit á þremur stöðum og handtók að minnsta kosti 7 einstaklinga í gær í tengslum við rannsókn sína á banvænu fíkniefni sem komið er í umferð hér á landi. Grunur leikur á að efnið hafi orðið ungri konu að bana í gær.

Andlát í Árbæ: Tvær konur látnar lausar

Tvær konur sem handteknar voru í tengslum við andlát ungrar konu í Árbæ í gær voru látnar lausar í morgun. Tveir karlar eru enn í haldi vegna málsins en verða látnir lausir síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×