Innlent

Pabbamorgnar á fjölskyldukaffihúsi

Erla Hlynsdóttir skrifar
Börnin geta fundið sér ýmislegt að gera á leiksvæðinu inn af kaffihúsinu
Börnin geta fundið sér ýmislegt að gera á leiksvæðinu inn af kaffihúsinu Mynd: Fjallkonubakarí / Karen María Magnúsdóttir
Fjölskyldukaffihúsið Fjallkonubakarí fer af stað með pabbamorgna í fyrramálið, miðvikudaginn 4. maí. Feður eru þá boðnir sérstaklega velkomnir með börnin sín, föndurkörfur verða á borðum og geta feður þá átt gæðastund með sínu barni og komist í kynni við aðra feður.

Lára Guðrún Jóhönnudóttir, eigandi Fjallkonubakarís, segist hafa fengið góð viðbrögð við pabbamorgnunum. Ætlunin er að þeir verði alla miðvikudagsmorgna, frá klukkan tíu og fram til klukkan eitt.

Lára Guðrún segir að vissulega komi bæði mæður og feður á kaffihúsið með börnin sín. Hún bendir þó á að kaffihúsið Hljómalind, sem var þarna áður til húsa, hafi verið með sérstaka pabbamorgna sem nutu mikilla vinsælda, og því hafi blasað við að byrja með þá aftur.

Fjallkonubakaríið var opnað á Laugavegi 23 í Reykjavík, skömmu fyrir síðustu jól, og var það yfirlýst stefna frá upphafi að fjölskyldufólk gæti þar komið saman.

Boðið er upp á hefðbundnar kaffihúsaveitingar, auk þess sem hægt er að fá grænmetismauk fyrir þau allra yngstu. Inn af kaffihúsinu er síðan leiksvæði þar sem börnin geta leikið sér á meðan foreldrarnir spjalla.

Fjallkonubakaríið er með Facebook-síðu sem má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×