Fótbolti

Hitzfeld: Mourinho er búinn að skaða nafn Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho, klappar fyrir dómaranum í leiknum á móti Barcelona.
Jose Mourinho, klappar fyrir dómaranum í leiknum á móti Barcelona. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ottmar Hitzfeld, fyrrum þjálfari Bayern München, er allt annað en sáttur með leikfræði og hegðun Poprtúgalans Jose Mourinho í tengslum við fyrri undanúrslitaleik Real Madrid og Barcelona. Hitzfeld er á því að með því að spila algjöra varnartaktík og ásaka Barcelona-menn síðan um svindl eftir 0-2 tap hafi Mourinho skaðað hið góða nafn Real Madrid.

„Þetta er ekki það sem má búast við af kóngunum frá Madríd," skrifaði Ottmar Hitzfeld í pistli sínum í þýska blaðinu Kicker en Hitzfeld er núverandi þjálfari svissneska landsliðsins. Lionel Messi tryggði Barcelona 2-0 sigur með tveimur mörkum eftir að Real-liðið hafði misst mann útaf með rautt spjald.  

„Hið góða nafn og ímynd þessa virta félags hefur skaðast við þetta," skrifaði hinn 62 ára gamli Hitzfeld sem ber Mourinho heldur ekki góða söguna í þau skipti sem þeir hafa hist á þjálfararáðstefnum UEFA.

„Ég hef upplifað Mourinho á sama hátt og hann lítur út fyrir að vera. Hann er hrokagikkur, vanþakklátur og durgslegur. Hann skaut líka langt yfir markið með því að efast um hollustu Barcelona við Unicef-samtökin," sagði Hitzfeld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×