Innlent

Íbúar hafa innsiglað hlið Sorpu á Kjalarnesi

Íbúar á Kjalarnesi hafa innsiglað hlið endurvinnslustöðvar Sorpu á Kjalarnesi.

Í síðustu viku setti Sorpa upp skilti sem tilkynnti um lokun endurvinnslustöðvarinnar en íbúar Kjalarness hafa tekið það niður og sett upp annað skilti sem segir "innsiglað af íbúum Kjalarness".

Þá hafa íbúar lokað hliðinu tryggilega með keðju til að hindra að gámarnir þar verði fjarlægðir og ítreka óskir sínar um viðræður um framtíð þessarar stöðvar.

Í tilkynningu frá íbúunum segir að þeir séu afar ósáttir við lokun endurvinnslustöðvarinnar en síðasti opnunardagur var sl. föstudag. Undanfarið hefur verið í undirbúningi sérstak átak varðandi flokkun úrgangs með áherslu á endurvinnslu á Kjalarnesi. Því segja íbúarnir það skjóta skökku við að loka þessari stöð.

Íbúarnir hafi óskað eftir viðræðum um fyrirkomulag þessarar þjónustu en engin svör fengið. Íbúarnir byggja málflutning sinn á sáttmála sem gerður var við sameiningu sveitarfélaganna þar sem sérstaklega er kveðið á um þessa þjónustu. Til að fara í næstu endurvinnslustöð þurfi að fara langan veg um umferðarþyngsta veg landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×