Innlent

Andlát í Árbæ: Tvær konur látnar lausar

Tvær konur sem handteknar voru í tengslum við andlát ungrar konu í Árbæ í gær voru látnar lausar í morgun. Tveir karlar eru enn í haldi vegna málsins en verða látnir lausir síðar í dag.

Konan sem lést í gær var fædd 1990. Ekki er enn vitað um dánarorsök en lögregla bíður niðurstöðu krufningar. Fjórir aðilar voru í íbúðinni þegar konan lést um hádegisbilið í gær, tveir karlar og tvær konur. Þau voru öll handtekinn en ekki verður krafist gæsluvarðhalds. Konurnar voru látnar lausar nú í morgun og karlarnir verða látnir lausar síðar í dag.

Húsleit var gerð í íbúðinni í gær, þar fundust sterar og lítilræði af fíkniefnum. Vegsummerki bentu einnig til að fíkniefnaneysla hefði farið fram í íbúðinni.

Eins og fram kom í gær er ákveðinn grunur um að hin látna hafi tekið inn eitrað metamfetamín sem nú er í umferð hér á landi og hefur orðið ungmennum að bana, víða um heim undanfarið, meðal annars í Noregi. Þetta verður hins vegar ekki vitað með vissu fyrr en niðurstöður krufningar liggja fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×