Innlent

Vestmannaeyjabær íhugar stjórnsýslukæru vegna dagssekta

Bæjarstjóri Vestmannaeyja telur Umhverfisstofnun brjóta á bæjarfélaginu
Bæjarstjóri Vestmannaeyja telur Umhverfisstofnun brjóta á bæjarfélaginu
Vestmannaeyjabær íhugar stjórnsýslukæru á hendur Umhverfisstofnun vegna vinnubragða stofnunarinnar við mat á mengun frá sorpbrennslustöð bæjarfélagsins og ákvörðunar um að beita Vestmannaeyjabæ dagsektum.

Ákvörðun Umhverfisstofnunar byggir á því að mengun frá sorpbrennslustöðinni mældist yfir mörkum, og því að bæjarfélagið hafi ekki gert nauðsynlegar úrbætur á hreinsibúnaði stöðvarinnar.  Umhverfisstofnun kunngerði ákvörðun sína um dagsektir í gær.

Vestmannaeyjabær gagnrýnir að í tilkynningu frá Umhverfisstofnun hafi láðst að geta þess að bæjarfélagið hafi gripið til margvíslegra úrræða til að draga úr mengun.

Í tilkynningu frá Elliða Vignissyni, bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar, segir að bæjarfélagið hafi óskað eftir nýrri mælingu á menguninni þar eð mengunarvarnarbúnaður hafi verið að hluta óvirkur þegar fyrri mæling Umhverfisstofnunar var gerð. Einnig fór bæjarfélagið formlega fram á að beðið yrði með íþyngjandi ákvæði, þar með taldar dagsektir, þar til ný mæling lægi fyrir.

„Í stað þess að fresta úrskurði meðan beðið væri eftir niðurstöðu mælinga valdi Umhverfisstofnun að senda frá sér fréttatilkynningu þar sem boðaðar voru dagsektir á Vestmannaeyjabæ sem og önnur íþyngjandi ákvæði - allt byggt á mælingu sem Vestmannaeyjabær dró í efa," segir í tilkynningunni.

Þá er bent á að nýjar mælingar hafi sýnt að mengun var ekki jafn mikil og í fyrri mælingu, og því forsendur ákvörðunar Umhverfisstofnunar rangar.

„ Í ljósi nýrra mælinga sem sýna að ekki einungis hefur Umhverfisstofnun sniðgengið þessar athugasemdir heldur beitt verulega íþyngjandi úrræðum á grunni mælinga sem nú ekki gefa rétta mynd af ástandi mála - eins og bent hafði verið á - íhugar Vestmannaeyjabær nú að fela lögfræðingi

sveitarfélagsins að leita réttar þess á grundvelli m.a. rannsóknarreglu stjórnsýslulaga (þar sem kveðið er á um að mál séu nægjanlega upplýst áður en tekin er ákvörðun í þeim) og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga (þar sem m.a. er kveðið á um að stjórnvald skuli gæta þess að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til)," segir í tilkynningu Vestmannaeyjabæjar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×