Innlent

Opnunarhátíð Hörpunnar á sama tíma og Eurovision

SB skrifar
Unnið er hörðum höndum að því að klára sem mest í Hörpu og nágrenni hennar fyrir helgina. Mynd/Stefán
Unnið er hörðum höndum að því að klára sem mest í Hörpu og nágrenni hennar fyrir helgina. Mynd/Stefán
Eurovision partý eru órjúfanlegur hluti af Eurovision hefðinni og líklega verða göturnar í Reykjavík fáfarnar þegar íslenska lagið verður flutt í Düsseldorf á laugardagskvöld. Nema kannski í nágrenni við Hörpuna, en opnunarhátíð tónlistarhússins er einmitt um helgina og mun dagskráin halda áfram langt fram á kvöld á laugardaginn.

Steinunn Birna Ragnarsdóttir, tónlistarstjóri Hörpunnar, segist ekki búast við því Harpan verði tóm á laugardagskvöldið en margar af fremstu popp og rokksveitum þjóðarinnar stíga á stokk.

Spurð hvort gestum Hörpunnar verði gefinn kostur á því að horfa á keppnina í beinni í Hörpunni segir Steinunn:

„Það hefur nú ekki verið skoðað. En svona, þegar þú segir það, þá er það ekki svo slæm hugmynd."

Tónleikarnir á laugardag fara fram í salnum Silfurbergi. Þar koma fram hljómsveitirnar Apparat Organ Quartet, Hjaltalín, Jónas Sigurðsson og Ritvélar framtíðarinnar, HAM, Agent Fresco, Mammút, Lights on the Highway og Valdimar.

Hægt er að kynna sér hátíðina nánar í nýjum dagskrárbæklingi fyrir næstu mánuði í Hörpu. Hann má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×