Innlent

Vill ekki skjóta mávana - vinsamleg tilmæli nægja

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Borgarfulltrúi Besta flokksins beinir því til fólks að hætta að gefa öndunum á Tjörninni Reykjavík brauð til að sporna við ágangi máva. Ekki stendur til að banna brauðgjafirnar að svo stöddu.

Sílamávar fyllir nú Tjörnina í Reykjavík líkt og fyrri vor. Mávarnir er fyrirferðamikill og sagði meindýraeyðir í kvöldfréttum okkar í gær að þeir éti um 95% af því brauði þar er gefið. Telur hann að besta leiðin til að losna við mávana af tjörninni sé að banna allar brauðgjafir.

Formaður Umhverfis- og samgönguráðs borgarinnar segir vandamálið hvimleitt. Ekki komi þó til greina að reyna að fækka mávunum með því að skjóta þá líkt og reynt var fyrir nokkrum árum.

„Mér hugnast ekki sérstaklega sú leið. Það var ágætistilraun en ekki eitthvað sem við viljum gera núna," segir Karl Sigurðsson, formaður umhverfis- og samgönguráðs borgarinnar.

Karl segir mikilvægt að reyna þess í stað að ráðast að rót vandans. Við Tjörnina eru núna tvö skilti þar sem fólk er hvatt til að stilla brauðgjöfum í hóf yfir sumartímann.

„Eftir að sandsílastofninn hrundi hafa mávarnir leitað meira inn í borgina, þar sem ætið er. Og það er ruslið á götunum, og svo á tjörninni, sem er hálfgerð brauðsúpa," segir Karl og bætir við:

„Ég kann ekkert við að banna brauðgjafir. Við byrjum á vinsamlegum tilmælum og ég held að flestir sýni því skilning."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×