Gylfi Þór Sigurðsson var valinn leikmaður ársins hjá þýska úrvalsdeildarfélaginu Hoffenheim af stuðningsmönnum félagsins.
Kosningin fór fram á Facebook-síðu Hoffenheim og hlaut Gylfi 907 atkvæði. Tom Starke kom næstur með 718 atkvæði en þeir voru í sérflokki í kjörinu.
Gylfi stóð sig vel á sínu fyrsta tímabili í Þýskalandi en þangað var hann keyptur síðastliðið haust frá Reading í Englandi. Hann skoraði níu mörk í deildinni og lagði upp þrjú til viðbótar.
Gylfi verður í eldlínunni með A-landsliði Íslands gegn Dönum eftir rúma viku og svo væntanlega með U-21 liðinu í úrslitakeppni EM í Danmörku.

