Erlent

Rússar vilja miðla málum

Rússar hafa boðist til að miðla málum til þess að fá Moammar Gaddafi til þess að fara frá völdum. Rússar gagnrýna umfang árása NATO á Líbíu.

Stjórnvöld í Líbíu hafa boðið enn eitt vopnahlé og segjast nú í fyrsta skipti vera reiðubúin að ræða við fulltrúa uppreisnarmanna. Stjórnarherrarnir segjast vera tilbúnir að gera allskonar breytingar. En sem fyrr er það algert skilyrði að Gaddafi verði áfram við stjórnvölinn.

Á það geta uppreisnarmenn enganvegin fallist og ekki heldur leiðtogar G8 ríkjanna sem nú sitja á fundi í Frakklandi. Jafnvel Rússar sem hafa gagnrýnt loftárásir NATO á Líbíu eru tilbúnir til að reyna að semja við Gaddafi um brotthvarf hans.

„Það sem er mikilvægt fyrir okkur er að aðilar málsins finni grundvöll að samningi. Aðalatriðið er að hætta skothríðinni. Ef grunvöllurinn felur í sér að Gaddafi fari frá er enginn vafi á því að við erum reiðubúnir að staðfesta að Gaddafi fari frá völdum. Þetta var samþykkt og endurspeglaðist í viðtölum sem forsetinn átti við aðra leiðtoga á fundinum og það kom fram í lokaskýrslu fundarins," segir Serge Ryabkov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands.

Moammar Gaddafi er nú sagður fela sig á sjúkrahúsum í Trípólí, því hann geti verið nokkuð viss um að þau muni orrustuvélar NATO forðast eins og heitan eldinn. Hinsvegar hafa þær sprengt höfuðstöðvar hans og stjórnstöðvar sundur og saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×