Fótbolti

Barcelona flýgur til London í kvöld út af eldgosinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn FC Barcelona á æfingu.
Leikmenn FC Barcelona á æfingu. Mynd/Nordic Photos/Getty
Barcelona-liðið mun fljúga til London í kvöld vegna úrslitaleiks Meistaradeildarinnar á laugardaginn. Þetta er tveimur dögum fyrr en áætlað var en ástæðan er að Barcelona-menn eru að reyna að forðast öskuskýið sem er á leiðinni yfir Bretland frá eldgosinu í Grímsvötnum.

Flug Barcelona-liðsins er klukkan tíu í kvöld en Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, hafði talað um það strax í gær að liðið væri að velta fyrir sér að breyta ferðaáætlunum sínum vegna hættunnar á því að flugvöllum í London yrði lokað á fimmtudaginn.

UEFA mun ekki fresta leiknum hvernig sem ástandið verður en það er hætt við því að stuðningsmenn Barcelona gætu lent í vandræðum með að komast til Lundúna verði öskuskýsspáin óhagstæð í lok vikunnar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem eldgos á Íslandi hefur áhrif á ferðalög Barcelona fyrir leiki í Meistaradeildinni. Í fyrra varð liðið að ferðast í rútu til Mílanó fyrir fyrri undanúrslitaleik sinn á móti Inter vegna eldgosins í Eyjafjallajökli. Barcelona tapaði leiknum 1-3 og varð síðan að sætta sig við að falla úr leik. Guardiola er því brenndur af vandræðunum í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×